Ousman Manneh - Kubuneh

Ousman Manneh

Pistill eftir Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur,
stofnanda Allir Skipta Máli og Kubuneh Verslun

Ousman Manneh hafði nýklárað hjúkrunarfræðinám þegar hann var gerður ábyrgur fyrir rekstri heilsugæslunnar í Kubuneh sem þá var fjármögnuð af dönskum aðilum. Þegar þessir aðilar hættu er Ousman skilinn eftir með galtóma bankabók og tóman lyfjalager. Á nákvæmlega þessum tímapunkti er ég að stíga mín fyrstu skref í Gambíu. Ég trúi því að við Ousman höfum verið leidd saman til að gera það sem við trúum bæði á „If you do good you get good“. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Ousman því án hans hefði góðgerðarfélagið Allir Skipta Máli og allt það góða starf sem hefur verið unnið í Gambíu aldrei orðið að veruleika. Það var að hans frumkvæði sem þetta fór allt af stað og varð til þess að ég tók við rekstri heilsugæslunnar eftir að hafa aðeins hitt hann þrisvar sinnum. Svo skall Covid á og ég þurfti því að treysta honum fyrir rekstrinum á meðan Covid gekk yfir. Ousman sér um daglegan rekstur heilsugæslunnar ásamt því að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Hann heldur einnig utan um öll önnur verkefni á vegum Allir Skipta Máli í Gambíu. Það er ómetanlegt að kynnast manneskju í annarri heimsálfu sem kemur frá allt annarri menningu en samt er eins og við höfum alltaf þekkst. Ég hef getað treyst honum frá fyrsta degi fyrir starfinu sem bara stækkar og stækkar.