Blæðingafræðsla – Fræðsla, stuðningur & sjálfbær lausn

Blæðingafræðsla

Pistill eftir Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur,
stofnanda Allir Skipta Máli og Kubuneh Verslun

Í fyrstu ferðina til Gambíu árið 2018 tók ég með mér nokkra poka með fjölnota dömubindum o.fl fyrir stúlkur sem var verkefni sem mamma mín og hennar vinkonur höfðu verið að vinna fyrir samtök í USA. Ég fór á heilsugæsluna með pokana, útskýrði innihaldið og spurði hvort þetta væri eitthvað sem gæti hjálpað stúlkum í Kubuneh. Ég skildi netfangið mitt eftir hjá yfirmanninum og nokkrum dögum eftir að ég kom heim fékk ég tölvupóst þar sem stóð „This is to inform that we have put the idea of the handmade sanitary pad to the young girls and ladies and they all welcomed the idea and liked it because it is simply and handy. So you can bring as many as you can“
Ég fékk leyfi hjá dönunum sem fjármögnuðu rekstur heilsugæslunnar á þessum tímapunkti til að nota hjúkrunarfræðingana á heilsugæslunni til að sjá um blæðingar fræðsluna sjálfa því ég var alls ekki fær um það. Þegar verkefnið var komið vel af stað bjó ég til mína eigin blæðingar fræðslu sem heitir For Women Only. Við hönnuðum ný bindi sem eru þægilegri í notkun, ég bjó líka til nýtt kennsluefni þar sem stúlkurnar eru fræddar um meira en bara blæðingar. Kynlíf, getnaðarvarnir, þunganir og umskurður stúlkna er eitthvað sem verður að tala um. Rúmlega 2.600 stúlkur hafa notið góðs af þessu verkefni.
Til ársins 2024 voru bindin saumuð og allt sem fer í pokana undirbúið af sjálfboðaliðum í Vestmannaeyjum en það voru blikur á lofti um að það myndi líða undir lok. Ég vildi alls ekki að þetta mikilvæga verkefni myndi stoppa svo ég opnaði mína eigin saumastofu í Kubuneh (þorpi) og réði tvo einstaklinga sem nú sjá um að sauma bindin.
Nú er svo komið að allar stúlkur í Kubuneh hafa fengið fræðslu svo við einbeitum okkur að stúlkum sem eru að byrja í 4.bekk á hverju ári. Fræðslan hefur einnig farið fram í þorpum í kringum Kubuneh.
Markmiðið er svo að fá önnur hjálparsamtök eða einstaklinga til að kaupa fræðsluna af okkur og fá þannig tekjur inn í verkefnið. Generation Gambia eru bresk hjálparsamtök sem ég hef þegar hafið samstarf við. Þau stefna á að veita 1.000 stúlkum og konum fræðslu.
Það er svo magnað hvernig lífið getur verið – ef mamma hefði ekki látið mig
hafa dömubindapokana til að fara með í fríið 2018 hefði þetta verkefni aldrei orðið til.