Fæðingarþjónusta
Frá því að ég tók við heilsugæslunni hafa fæðingar ekki mátt fara þar fram. Nokkrum sinnum á ári fæðast hins vegar börn á heilsugæslunni með hjálp hjúkrunarfræðings og skúringarkonu því móðirin er komin of langt í fæðingu til að flytja hana á spítala. Tida Badje skúrar og þrífur á heilsugæslunni en hún er líka TBA (traditional birth attendant) eða doula. Hún er yndislega góð kona og hugsar vel um sjúklingana okkar. Mikið er um heimafæðingar við aðstæður sem eru langt frá því að vera í lagi en Tida sinnir öllum þessum konum án þess að fá greitt fyrir.
Allir Skipta Máli hefur styrkt einn af hjúkrunarfræðingunum okkar til ljósmóðurnáms. Innan skamms mun hún snúa til baka og þá getum við opnað á fæðingar sem mun auka öryggi kvenna og barna þeirra til muna. Í dag höfum við eitt herbergi sem notað er fyrir fæðingar en þegar fæðingarþjónustan fer af stað verður þetta eina herbergi ekki nóg. Allir Skipta Máli stefnir því á að byggja sérstaka fæðingardeild sem kallar á að ráða þarf fleiri ljósmæður.
