Kubuneh Verslun - Kubuneh

Kubuneh verslun

Pistill eftir Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur,
stofnanda Allir Skipta Máli og Kubuneh Verslun

Kubuneh Verslun er hringrásarverslun í Vestmannaeyjum sem heldur líka úti netverslun. Allar vörur í versluninni koma frá Vestmannaeyingum sem gefa í starfið í stað þessa að fara með í Sorpu. Verslunin sló í gegn á fyrsta degi og ég gerði mér enga grein fyrir hvernig þetta ævintýri átti eftir að springa út og verða svo stórt að ég gæti ekki gert þetta ein. Ekki leið á löngu þar til komnir voru sjálfboðaliðar til að hjálpa mér og hafa þeir hjálpað mér við afgreiðslu í búðinni. Sumir hafa verið með mér alveg frá upphafi. Mikill tími og vinna fer í að fara í gegnum allar fatagjafir því við leggjum mikin metnað í að velja það sem fer í sölu, magnið er gríðarlegt og það hefur tekið langan tíma að fá fólk til að skilja að við tökum bara á móti heilum og hreinum fötum sem hægt er að selja, annað á að fara í Sorpu.
Ég hef fengið mikið hrós fyrir búðina, hún er snyrtileg, vel upp sett og skipulögð. Hringrásar- verslanir þurfa nefnilega ekki að vera ósnyrtilegar og það hversu falleg búðin er hefur laðað fólk að. Orðsporið hefur ferðast langar leiðir og því engin ástæða til að eyða peningum í auglýsingar enda hefur það verið alveg skýrt frá upphafi að öll innkoma í Kubuneh Verslun fer í starfið, það er enginn rekstrarkostnaður og engin fær greidd laun frá Allir Skipta Máli.
Það eru því í raun Vestmannaeyingar sem gera mér þetta kleift með öllum fatagjöfunum en það er vont til þess að hugsa að ef ekki væri Kubuneh Verslun færi allur þessi fatnaður í ruslið. Það væri svakaleg sóun á verðmætum og að sjálfsögðu rosalegt fyrir náttúruna.