Styrkir til náms - Kubuneh

Styrkir til náms

Pistill eftir Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur,
stofnanda Allir Skipta Máli og Kubuneh Verslun

„Menntun er máttur“ á heldur betur vel við í Kubuneh. Awa Lilian Jarju er hjúkrunarfræðingur sem vinnur á heilsugæslunni í Kubuneh og sýndi hún áhuga á að fara í ljósmóðurnám. Það var kærkomið þar sem fæðingar mega ekki fara fram á heilsugæslunni því við höfðum enga menntaða ljósmóðir. Allir Skipta Máli hefur því styrkt hana til náms. Hér getur þú lesið um fæðingarþjónustu í Kubuneh. Awa mun fljótlega snúa aftur á litlu heilsugæsluna í Kubuneh sem ljósmóðir sem hækkar þjónustustigið og eykur öryggi mæðra og barna þeirra til muna.
Masire Jatta og Sang Samboru eru strákar sem hafa unnið á heilsugæslunni í langan tíma og langar að verða hjúkrunarfræðingar. Þeir höfðu ekki klárað framhaldsskóla svo þeir voru sendir aftur í 11.bekk til að koma vel undirbúnir í 12.bekk en einkunnirnar úr 12.bekk segja til um hvort þeir komist inn í hjúkrunarfræðinám. Það eru ekki bara skólagjöld og bækur sem Allir Skipta Máli borgar fyrir strákana því einhvern veginn þurfa þeir að komast í skólann. Keypt voru hjól sem þeir nota til að hjóla í skólann sem er inn í borg. Það er ekki auðvelt í mjúkum sandinum í 30-40°C.
Í júlí 2024 skrifaði ég svo undir samninga við Zackline Badje og Abdoulie Jatta sem búa bæði í Kubuneh. Þau hafa þegar hafið nám í hjúkrunarfræði sem tekur 3 ár, þau skuldbundu sig til að vinna á heilsugæslunni í Kubuneh í 6 ár eftir útskrift.