Um heilsugæsluna – Aðstoð, umönnun & mikil breyting

Um heilsugæsluna

Pistill eftir Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur,
stofnanda Allir Skipta Máli og Kubuneh Verslun

Í miðjum Covid faraldri tók ég við rekstri á heilsugæslu í annarri heimsálfu og þurfti því að treysta á mann sem ég hafði hitt þrisvar sinnum til að reka heilsugæsluna í mínu nafni. Það er ekki gefið að hitta á einhvern í Gambíu sem hægt er að treysta en ég datt í lukkupottinn, HÉR getur þú lesið um Ousman Manneh.
Heilsugæslan er lítil “community clinic” og þar er aðeins veitt grunnheilbrigðisþjónusta. Tveir til þrír innfæddir hjúkrunarfræðingar starfa þar eins og læknar þ.e taka á móti sjúklingum og skrifa upp á lyf. Alls starfa 17 manns á heilsugæslunni. Við höfum apótek, skiptistofu og legudeild með sex rúmum og tveimur barnarúmum en sjúklingar liggja aldrei inni yfir nótt.
Við erum einkarekin heilsugæsla og því kemur ríkið ekkert fjárhagslega að rekstrinum en við höfum samt ýmiskonar tilkynningarskyldu gagnvart ríkinu. Heilsugæslan er sem sagt algjörlega upp á mig komin. Allt sem við kemur rekstrinum, kaup á lyfjum, laun starfsfólks, rekstur sjúkrabíla o.s.frv er fjármagnað með Kubuneh Verslun.
Þegar ég loksins komst út eftir Covid tók við mikil tiltekt, þrif og skipulagsvinna. Farið var í miklar framkvæmdir allt málað að innan og utan, öll lóðin girt af, nýtt þak sett á veröndina, útisvæðið hellulagt, stórt og mikið bílaplan steypt fyrir nýja sjúkrabíla.
Aldrei hafði verið til sjúkrabíll í Kubuneh og því erfitt fyrir mikið veika sjúklinga og konur í fæðingu að komast inn í borg á spítala. Nú á heilsugæslan í Kubuneh tvo sjúkrabíla sem eykur öryggi íbúa Kubuneh og þorpanna í kring mikið.
Fæðingarþjónusta hefur ekki verið í boði í Kubuneh þar sem við höfum ekki haft menntaða ljósmóðir, fæðingar fara samt fram þegar konur eru komnar of langt í fæðingu til að flytja þær á spítala. Þetta stendur nú allt til bóta þar sem Allir Skipta Máli hefur styrkt einn af okkar hjúkrunarfræðingum til ljósmóðurnáms. Hér getur þú lesið um námsstyrki sem hafa verið veittir.