Upphafið á Kubuneh – Hvernig allt byrjaði

Upphafið

Pistill eftir Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur,
stofnanda Allir Skipta Máli og Kubuneh Verslun

Frá því að ég var lítil stelpa hefur mig langað að hjálpa fólki í Afríku, ég veit ekki hvaðan sú löngun kemur en hún hefur alltaf verið til staðar. Læknar, hjúkrunarfræðingar, kennarar það er fólkið sem fer í hjálparstarf til Afríku – eða það fannst mér allavega. Ég er ekkert af þessu og fannst ég ekkert hafa að gefa svo ég hélt að ég fengi drauminn aldrei uppfylltan.

Einn góðan veðurdag árið 2018 sit ég á kaffihúsi eins og svo oft áður með góðri vinkonu minni þegar hún segir mér frá hjónum frá Vestmannaeyjum sem séu að styrkja skóla í Gambíu. Ég hafði samband við hjónin og spurði hvort ég og fjölskyldan mín mættum fara með þeim í næstu ferð til Gambíu og ég fékk þetta örlagaríka Já. Seinna sögðu þau mér að margir hefðu óskað eftir að fá að fara með þeim en engin verið eins heppinn og ég. Á þessum tímapunkti hefði ég aldrei getað ímyndað mér hvert þetta ætti eftir að leiða mig. Árið 2019 förum við fjölskyldan í okkar fyrstu ferð til Gambíu og nú var ekki aftur snúið. Hjartað mitt leitaði strax á heilsugæsluna. Ef ég ætlaði að hjálpa til í þessu þorpi þá var heilsugæslan rétti staðurinn því þangað þurfa allir að leita. Á þessum tíma voru það danskir eldri borgarar sem styrktu rekstur heilsugæslunnar og því ekki þörf fyrir mig en ári síðar tilkynntu danirnir að þeir gætu ekki lengur haldið sínu starfi áfram. Þarna kom tækifærið, ég var beðin um að taka litlu heilsugæsluna í Kubuneh að mér. Nú var að hrökkva eða stökkva. Ég hefði getað sagt nei – hvernig ætla ég að fara að því að reka heilsugæslu í annarri heimsálfu en ég ákvað að segja já. Góðgerðarfélagið Allir Skipta Máli varð til og lífið tók U beygju.

Ef þú lest um blæðingarfræðsluna mína þá sérðu hvernig nokkrir litlir pokar tengdu mig við heilsugæsluna og breyttu lífi mínu.